2015 er gildra
ljóðagallerí í eigu Ingólfs Gíslasonar og lomma

Í borginni minni Maskína

Í borginni minni Maskína
á einhver afmæli,
Sylvía, Kólumbus,
fólkið sem skemmtir sér,
trén eru stór,
ræturnar sprengja stéttina,
þau eru stór bæði upp og niður,
í borginni er ekkert yfir nema himinn.

Í borginni er kveikt, það á einhver afmæli,
það er kveikt til að minna mig á að Sean
gengur í pels af mömmu sinni og pabba,
í haustsvalanum í turninum.

Í borginni Innstunga ímynda ég mér,
til að minna mig á,
ég er þrettán, það er október,
það eru fréttir frammi í útvarp Reykjavík,
klukkan er orðin eitthvað,
ég er inní herbergi og sný öfugt,
hangi á fótunum fyrir ofan rúmið,
ég er á hvolfi,
ég ímynda mér að ég sé níu,
ég er níu og mig grunar
að C.S Lewis sé kommúnisti,
ég hugsa oft um það,
C.S. Lewis er kommúnisti.

Í borginni,
getiði hætt að tala,
mig langar að standa í borginni,
og reyna að sjá stelpuna brenna,
þessa litlu sem hljóp einu sinni allsber,
eins og vasaljós.
Í borginni minni Slökkvari,
svo ímynda ég mér myrkur,
til að minna mig á,
ég snýst við,
mikið afrek unnið,
undir verður upp,
í borginni Myrkur,
ég er fjörutíu,
hef séð sjóinn hverfa,
séð fólk breytast,
í kyndla,
þau settust upp í rúmunum,
í borginni Kveikjari,
og sátu í rúmunum
og loguðu eins og eldspýtur,
eins og barnið sem breyttist í vasaljós.

Ég ímynda mér til að minna mig á
að fréttirnar voru sagðar,
að ég hékk á hvolfi,
að steypan sprakk,
að barnið hljóp,
að fólkið brann,
að ekkert var yfir nema himinn,
að ekkert var undir nema rætur,
sem sprengdu stéttar.

Í borginni minni
í haustsvalanum,
ég grillaði ekkert í sumar,
ég átti afmæli,
meinlætalíf á silfurbakka,
góður infrastrúktúr fyrir bros,
slökkt á grilli,
kveikt á súlu,
á eldspýtu,
á vasaljósi,
á kyndli,
í sex manneskjum,
og svo slökkt,
og svo kveikt á súlu.

Í borginni minni,
ég slepp ekki,
ég er innstunga,
ég er vasaljós,
ég er kyndill,
í borginni minni Ógeð,
með himinn yfir,
en ímyndið ykkur,
ef það fær ykkur til að kveikja,
í afmæli,
þá er það frábært.

Smelltu hér til að fræðast meira um 2015 er gildra